Skip to main content
21. nóvember 2024

Nýsköpun sem drifkraftur: Hvernig ríkið getur nýtt innkaup til að skapa verðmæti og stuðlað að vexti

Stefán Þór Helgason

Stefán Þór HelgasonÁ Íslandi er öflug frumkvöðlasena þar sem sprotafyrirtækjum fjölgar jafnt og þétt. Sum þeirra hafa vaxið og dafnað og skapa því bæði umtalsverðar tekjur og fjölmörg störf. Hugverkaiðnaður er „vonarstjarna íslensks atvinnulífs“ eins og Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins orðaði það á ársfundi Hugverkaráðs 2023. Útflutningstekjur hugverkaiðnaðar námu 263 milljörðum í fyrra sem er ríflega 14% af heildarútflutningstekjum hagkerfisins á því ári. Útflutningstekjur greinarinnar námu 91 milljarði árið 2013 og því má glöggt sjá hve myndarlegur vöxtur þessa geira hefur verið undanfarinn áratug.

Íslensk nýsköpunarfyrirtæki hafa eignast viðskiptavini um allan heim og náð miklum árangri. Nægir þar að nefna vörur fyrirtækja á borð við Marel, Össur og CCP sem í dag eru stöndug stórfyrirtæki en það má líka nefna nýlegri dæmi eins og árangur Controlant, Sidekick Health og einhyrningsins Kerecis sem hefur stuðlað að því að bæta lífsgæði og jafnvel bjargað mannslífum um allan heim á undanförnum árum. Þá má taka dæmi úr allt annarri átt eins og sykurlausar vörur GoodGood sem hafa selst í bílförmum m.a. í Bandaríkjunum og fengið frábærar móttökur. Listinn er langur og árangurinn eftirtektarverður.

Á ríkið að kaupa nýsköpun?
Það er því eðlilegt þegar horft er til þessa mikla árangurs íslenskra sprotafyrirtækja að spyrja hvort íslenska ríkið eigi að kaupa vörur þessara fyrirtækja. Ríkið setur milljarða króna á hverju ári í styrki til sprotafyrirtækja eins og þeirra sem nefnd eru hér að framan, til að styðja nýsköpun og framþróun efnahagslífisins. Þó að slíkur stuðningur sé mikilvægur, eru bein kaup ríkisins á vörum og þjónustu frá nýsköpunarfyrirtækjum jafnvel enn árangursríkari. Með því að kaupa af nýsköpunarfyrirtækjunum veitir ríkið þeim raunverulegan markaðsaðgang, staðfestir gæði þeirra lausna og eykur trúverðugleika þeirra gagnvart öðrum viðskiptavinum. Þetta skapar einnig eðlilegt viðskiptasamband þar sem fyrirtækin fá tækifæri til að sanna sig í samkeppni. Slíkur stuðningur leiðir til meiri vaxtar, sjálfbærni og hraðari þróunar fyrirtækja, sem skilar sér aftur til samfélagsins með aukinni verðmætasköpun og störfum.

Opinber stefnumörkun er einnig skýr þegar kemur að kaupum á nýsköpun. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá árinu 2021 er kveðið á um að ríkisstjórnin ætli sér að nýta nýsköpun í auknum mæli til lausna á viðfangsefnum hins opinbera. Enn fremur að skapaðar verði forsendur fyrir opinbera aðila til að vinna að jafnaði með nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum í því að hanna og þróa lausnir sem leyst geta viðfangsefni hins opinbera á hagkvæmari hátt en gert er.

Ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafa ítrekað bent á yfirvofandi og vaxandi þörf fyrir þjónustu hins opinbera s.s. í heilbrigðiskerfinu vegna öldrunar þjóðarinnar, í velferðarþjónustu, löggæslu og víðar. Til að mæta þeim áskorunum til framtíðar er í stórum dráttum um tvennt að velja: Annað hvort að velta þeim kostnaði á skattgreiðendur eða nýta nýsköpun til að veita betri þjónustu fyrir sama eða lægri kostnað en gert er. Nýsköpun er því allra hagur þar sem takmarkaðar auðlindir eru nýttar á hagkvæman hátt.

Hvernig fara kaup á nýsköpun fram?
Hjá hinu opinbera er mikilvægt að fylgja lögum um opinber innkaup en í grunninn er þar að finna góðar meginreglur um viðskipti ríkisins við aðila á einkamarkaði. Við viljum að það ríki gegnsæi, sanngirni og hagkvæmni í viðskiptum ríkisins og því mikilvægt að allir ferlar séu skýrir og uppi á borðum. Hins vegar getur verið áskorun að innleiða nýsköpunarinnkaup þar sem þörf er á meiri sveigjanleika og virkri þátttöku markaðsaðila. Oft er ekki til staðar hefðbundin lausn og því þurfa opinberir aðilar að skilgreina þörfina út frá virkni og markmiðum frekar en nákvæmri tæknilegri lýsingu. Til að ná þessu fram eru notaðar aðferðir eins og samráð við markaðsaðila, frumgerðarprófanir (e. pre-commercial procurement) og nýsköpunarsamstarf (e. innovation partnership), þar sem áhersla er lögð á að þróa nýjar lausnir sem bæta þjónustu og auka virði fyrir samfélagið.

Erlend dæmi um árangur
Til eru fjölmörg fordæmi frá Evrópu og víðar sem sýna hvernig ríki og sveitarfélög hafa nýtt innkaup á nýsköpun til að leysa samfélagslegar áskoranir, bæta þjónustu og auka skilvirkni. Í löndum eins og Svíþjóð, Bretlandi og Spáni hafa verið framkvæmd stór innkaupaverkefni sem hafa skilað nýjum lausnum á sviði umhverfismála, heilbrigðisþjónustu og samgangna. Þessi verkefni sýna hvernig opinberir aðilar geta í samstarfi við fyrirtæki og sprotafyrirtæki þróað nýjar lausnir sem ekki aðeins mæta þörfum nútímans heldur einnig skapa langtíma ávinning fyrir samfélagið.

1. „GrowSmarter“ verkefnið – Stokkhólmur, Svíþjóð
Stokkhólmsborg tók þátt í evrópska verkefninu GrowSmarter sem miðar að því að nota innkaup á nýsköpun til að bæta orkunýtni og sjálfbærni í borginni. Í verkefninu var innleitt snjallt lýsingarkerfi sem aðlagast sjálfkrafa að birtuskilyrðum og notar minni orku. Að auki voru snjallhitakerfi sett upp í nokkrum byggingum, sem lækkaði orkunotkun um allt að 30%. Verkefnið var samvinnuverkefni með einkaaðilum og nýtti sér „pre-commercial procurement“ (PCP) aðferðir til að þróa lausnir sem ekki voru enn á markaði.

2. „Select4Cities“ – Kaupmannahöfn, Helsinki, Antwerpen
Þetta evrópska samstarfsverkefni fól í sér þróun nýstárlegra lausna fyrir snjallborgir. Verkefnið, sem var byggt á „pre-commercial procurement“, kallaði eftir nýsköpunarlausnum til að þróa stafrænar vettvangstengingar fyrir gögn borgarinnar, sem myndu gera borgunum kleift að vinna saman og nýta gögn til stefnumótunar og þjónustuþróunar. Lausnir sem komu út úr verkefninu bættu aðgengi að opinberum gögnum, stuðluðu að meiri gagnsæi í opinberri stjórnsýslu og örvuðu nýsköpun innan smáfyrirtækja.

3. „Challengify“ – Rotterdam, Holland
Í Rotterdam var „Challengify“-verkefnið innleitt til að bæta úrgangsmeðhöndlun með nýsköpun. Borgin setti fram tiltekna áskorun og bauð fyrirtækjum og frumkvöðlum að bjóða lausnir sem gætu aukið endurvinnslu og lækkað kostnað við förgun. Ein lausnin sem var valin innihélt þróun á stafrænu verkfæri sem notaði gervigreind til að greina úrgang og beina honum í rétta endurvinnsluflokka. Verkefnið var framkvæmt í samstarfi við staðbundin fyrirtæki og leiddi til meiri skilvirkni í úrgangsstjórnun borgarinnar.

4. „STOPandGO“ verkefnið – Evrópa
Þetta verkefni, sem náði yfir nokkur Evrópulönd, beindist að því að nota nýsköpun til að bæta umönnun aldraðra í Evrópu. Með því að nota „public procurement of innovation“ (PPI) var fjárfest í nýjum tæknilausnum sem stuðluðu að fjarþjónustu og stafrænu eftirliti fyrir aldraða, meðal annars með þróun á skynjurum sem fylgdust með hreyfingu og líðan, og nýstárlegum heilsueftirlitslausnum. Verkefnið var innleitt í nokkrum borgum, t.d. í Barcelona og Coventry, og leiddi til bættra lífsgæða hjá notendum.

Það sem þessi erlendu dæmi sýna er að innkaup á nýsköpun eru ekki aðeins leið til að bæta opinbera þjónustu heldur einnig öflugt tæki til að skapa markað fyrir nýjar lausnir og auka samkeppnishæfni nýsköpunarfyrirtækja. Með því að opinberir aðilar taki frumkvæði í innkaupum á nýsköpun getur verið mögulegt að leysa krefjandi samfélagslegar áskoranir á hagkvæman hátt. Jafnframt skapar þetta tækifæri fyrir sprotafyrirtæki til að vaxa og sanna sig á stærri vettvangi, bæði innanlands og utan. Þannig má segja að vel heppnuð innkaup á nýsköpun séu allra hagur, bæði fyrir opinbera aðila, fyrirtæki og samfélagið í heild.

Höfundur: Stefán Þór Helgason, þjónustu- og viðskiptaþróunarstjóri hjá Fjársýslunni

Skoðað: 114 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála