
Stafrænn leiðtogi innan hins opinbera
Hádegisfundur Ský var haldinn 30. apríl 2025 í Hörpu bar yfirskriftina „Stafrænn leiðtogi innan hins opinbera". Spurt var hvert er hlutverk hins stafræna leiðtoga væri, hvernig hann næði árangri og hvernig væri hægt að móta framtíð hins opinbera með stafrænum lausnum.
Fundarstjóri var Ársól Þóra Sigurðardóttir frá upplýsingatæknisviði Reykjavíkurborgar og undirbúningur fundarins var í höndum stjórnar faghóps Ský um rafræna opinbera þjónustu, þeim Elmari Guðlaugssyni frá Hugvit, Fjólu Maríu Ágústsdóttur frá Fit4digital og Ragnhildi Helgu Ragnarsdóttur frá Stafrænu Íslandi.
Á fundinum deildu fjórir fyrirlesarar frá ólíkum opinberum stofnunum reynslu sinni og nálgun á stafræna umbreytingu. Fundurinn var vel sóttur og gómsætar veitinga í boði fyrir utan Kaldalón áður en hann hófst.
Fyrst á svið var Sigríður Magnea Björgvinsdóttir, deildarstjóri upplýsingatækni hjá Árborg, með fyrirlestur sem bar titilinn „Áskoranir stafræns leiðtoga sveitarfélag“. Hún lagði áherslu á mikilvægi þekkingar á breytingastjórnun, verkefnastjórnun og tækni sem lykilatriði í að ná árangri. Hún lýsti innleiðingarferli Árborgar á M365 í miðjum Covid-19 faraldrinum, þar sem vinna heiman frá krafðist hraðrar aðlögunar. Meðal aðgerða voru innleiðing beiðnakerfis sem leiddi til mikils tímasparnaðar, gerð vegahandbókar og vefhandbókar fyrir notendur og innleiðing aðgangsstýringar og sjálfvirkrar vinnslu. Hún sagði sveitarfélag verða að setja fram stafræna stefnu fyrir sinn stafræna stjóra og fyrir sitt sveitarfélag því það hjálpi til við að fá yfirsýn og sendir skýr skilaboð frá stjórnendum. Einnig þarf að vera virkt samtal milli sveitarfélaga. Minni sveitarfélög geta svo með samstarfi við önnur sveitarfélög t.d. nýtt sameiginlega stafræna leiðtoga. Stafrænn leiðtogi þurfi að bera marga hatta og búa yfir yfirsýn yfir verkefni, tengsl þeirra og fýsileika lausna. Hún nefndi ábendingagátt Árborgar, þróuð í samstarfi við Hafnarfjörð, sem dæmi um samstarf og möguleika á samræmingu gagna og sameiginlegum lausnum. Mikilvægt sé að stafrænn leiðtogi hafi góða samskiptahæfni og geti bæði tekið þátt í framkvæmdum og leitt breytingar.
Í kjölfarið flutti Sverrir Jónsson, framkvæmdastjóri stafrænna umbóta hjá Skattinum, erindi sitt undir yfirskriftinni „Stafrænar umbætur snúast um fólk frekar en tæki.“ Hann lýsti Skattinum sem bæði nútímalegri og hefðbundinni stofnun með langa sögu í þróun stafrænnar þjónustu og fjallaði um mikilvægi þess að einbeita sér að fólkinu sem vinnur að umbótum. Hann sagði mikilvægt að fólk festist ekki á rugguhestum og kæmist ekkert áfram. Þ.e. festist í ferlum og aðgerðum sem eru alltaf eins og hætta að þjóna nauðsynlegum tilgangi. Hann lagði áherslu á að litlu skrefin, notendamiðuð nálgun og skýr markmið væru lykillinn að árangri og setti fram sex meginatriði stafrænnar umbreytingar: Mikilvægi þess að spyrja „af hverju“ og „fyrir hvern“, að þora að prófa og gera mistök, að vinna í litlum skrefum, hafa skýra áætlun og, síðast en ekki síst, nauðsyn þess að hafa gott fólk sem nýtur stuðnings og sér tilgang verkefnanna. Hann benti á hvernig innleiðing rafrænna skilríkja og þróun spjallmenna í framtalsvertíð væru dæmi um áræðni sem skilaði sér í bættri þjónustu.
Eftir stutt kaffihlé tók Gunnar Haukur Stefánsson, deildarstjóri hugbúnaðarþróunar hjá Ríkislögreglustjóra, til máls og fjallaði um „Stafrænar umbreytingar lögreglunnar.“ Hann lagði áherslu á að árangur í stafrænum umbótum byggðist á skýrri stefnu, góðum teymum, samvinnu við aðila innan og utan stofnunar og notkun tækni eins og CI/CD til að hraða útgáfuferlum. Hann sagði að sjálfsafgreiðsla og þjónusta við notendur væri forgangsverkefni í framtíðarsýn lögreglunnar og nefndi mikilvægi þess að gögn væru aðgengileg á öruggan hátt og að vinnan snerist um verkefni starfsmanna en ekki eingöngu um kerfi. Meðal þeirra verkefna sem hann kynnti voru umsóknarferli um ökuréttindi, skotvopnakerfi, landamærakort og lögreglukerfið sjálft. Hann benti á framtíðarverkefni eins og rafræn áverkavottorð og rafrænar tilkynningar til Barnaverndar og réttindi dyravarða. Margvíslegar áskoranir voru nefndar, s.s. þörf á forgangsröðun, nýting styrkja og virkjun mannauðs.
Síðast flutti Guðlaug Dröfn Þórhallsdóttir, verkefnastjóri hjá Dómsmálaráðuneytinu, fyrirlestur um „Áskoranir stafræns leiðtoga í réttarvörslukerfinu. Hver á þá að prenta út gögnin?“ Hún lýsti því hvernig pappírsmiðað verklag og lagalegar kröfur geta hamlað tæknibreytingum, þar sem margir ferlar krefjast pappírsupplýsinga með tilteknum bleklit eða í margriti. Þá eru stofnanir sem vinna að sama máli oft án tæknilegrar tengingar og í litlum samskiptum sín á milli. Hún sagði frá réttarvörslugátt sem flytur gögn í stað fólks, og sýndi fram á hvernig rafræn málsmeðferð getur falið í sér lægri kostnað, styttri málsmeðferð, meira gagnsæi og minni kolefnisfótspor. Helstu áskoranir voru meðal annars lagaumhverfið, flókin verklagsferli, falskt öryggi og ósamræmdar tæknilausnir. Guðlaug Dröfn benti einnig á mikilvægi þess að hver stofnun taki skref í átt að rafrænni meðferð mála, með skýrri sýn, miðlægri málagátt og markvissri innleiðingu. Aðferðarfræðin fælist í litlum skrefum með vel skipulagðri innleiðingu stjórnað af góðum leiðtogum, teymum og talsmönnum breytinga.
Fundinum lauk með pallborðsumræðum undir stjórn fundarstjóra þar sem spurningum úr sal var svarað og enn frekari umræður sköpuðust um framtíðarsýn og hlutverk stafræns leiðtoga innan opinberra stofnana.
Ásta Gísladóttir tók saman.
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.