Skip to main content
2. október 2025

Hugleiðingar um áhrif gervigreindar

Ásrún Matthíasdóttir

Ásrún MatthíasdóttirÁ síðustu árum hefur þróun gervigreindar (AI – artificial intelligence) haft margskonar áhrif á samfélög um allan heim. Áhrifin eru víðtæk og ná til margra ef ekki allra sviða lífsins s.s. atvinnumarkaðar, menntunar, heilbrigðisþjónustu, laga og siðfræði, ásamt daglegu lífi einstaklinga. Sérstaklega hefur sjálfvirknivæðing með aðstoð gervigreindar haft mikil áhrif nú þegar og mun hafa í nánustu framtíð.

Þróunin er sú að gervigreind verður sífellt færari um að takast á við flókin og fjölbreytt verkefni. Þessi þróun getur haft margvísleg áhrif á einstaklinga og samfélög, á sjálfsmynd okkar og öryggi. Nú þegar hefur tæknin breytir gildum margra og haft áhrif á  samskipti einstaklinga, vináttu og jafnvel ástir því hægt er að standa í ástarsambandi við gervigreindina. Já, það eru til rómantísk spjallmenni/konur (Romantic AI chatbots) sem eru hönnuð til að herma eftir nánum og ástúðlegum samræðum við notendur.

Áhrif gervigreindar eru nú þegar mikil á atvinnumarkaðinn þar sem mörg störf hafa breyst, fækkað og jafnvel horfið vegna sjálfvirknivæðingar. Hér má nefna fækkun starfsfólks í þjónustugreinum eins og í banka- og tryggingastarfsemi, og margskonar afgreiðslu þar sem sjálfvirk svörun og ákvörðunartaka er orðin algeng. En tæknin hefur á sama tíma skapað ný störf, sérstaklega í hugbúnaðarþróun og gagnavinnslu en það kallar á endurmenntun einstaklinga til að mæta breyttum þörfum vinnumarkaðarins.

Í heilbrigðisgeiranum hefur gervigreindin stuðlað að margskonar framförum þar sem komin eru fram kerfi sem geta greint sjúkdóma með sífellt meiri nákvæmni, lesið úr myndgreiningum og gert spár um þróun heilsu út frá gögnum. Þetta getur bætt greiningar og meðferð, aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu og dregið úr kostnaði. Hins vegar skapar þetta einnig spurningar um ábyrgð, öryggi gagna og persónuvernd – ef gervigreindin bregst, hver ber þá ábyrgð?

Menntakerfið stendur einnig frammi fyrir miklum breytingum sem eru reyndar í takt við það sem hefur verið í gangi síðustu 30 árin eða svo. Gervigreindartækni getur aðstoðað við kennslu, aðlagað námsefni að þörfum nemenda, gefið sjálfvirka endurgjöf og haft áhrif á  hlutverk kennara sem geta skapað hvetjandi námsumhverfi fyrir nemendur. Einnig getur gervigreindin aukið aðgengi að menntun með margskonar tæknilegum nýjungum og tækifærum til samskipta, á sama tíma skapað óvissu um gildi hefðbundinnar menntunar og hlutverk mannlegra samskipta, að hittast og læra saman.

Siðferðileg og lagaleg málefni skipta miklu máli við aukin áhrif gervigreindar og spurningar vakna um hlutleysi og sanngirni gervigreindarkerfa. Hvernig getur kerfi sem „lærir af völdum“ gögnum verið fordómalaust ef gögnin endurspegla óréttlæti samfélagsins? Hver á að velja þau gögn sem gervigreindin lærir af? Hvernig á að vernda persónuupplýsingar í stafrænu umhverfi? Hver ber siðferðislega ábyrgð á þessum kerfum? Hvernig lærum við að meta þau gögn/upplýsingar sem koma frá gervigreindinni, hvað er satt og hvað er logið, hvað er raunverulegt og hvað er tilbúið af gervigreind? Hvernig eigum við í dag að geta sannað að við séum til og höfum gert það sem við höfum gert (eða ekki gert) þegar ekki bara er auðvelt að falsa myndir og texta heldur einnig tal og myndbönd?

Áhrif AI á daglegt líf eru augljós. Frá raddstýrðri aðstoð á heimilum til snjallforrita sem hjálpa til við ákvarðanatöku, er gervigreindin orðin hluti af hversdagsleikanum s.s. að láta gervigreindina skipuleggja fyrir þig daginn eða ferðalagið. Þetta getur aukið þægindi og afköst, en jafnframt valdið því að við verðum sífellt háðari tækninni og missum stjórn á eigin þekkingu og ákvörðunum.

Innan í umræðu um framtíðaráhrif gervigreindar á samfélag manna er hægt að greina að minnsta kosti þrjú mismunandi sjónarmið:

  • tækni-sjónarhorn, þar sem talið er að gervigreindin muni fljótlega fara fram úr mannkyninu á öllum sviðum og að helsta ógnin sé ofurgreind.
  • mann-sjónarhorn, þar sem mannverur muni alltaf vera yfirsterkari en gervigreindin í félagslegum og samfélagslegum þáttum og sköpun og að helsta ógnin sé að félagsleg geta manna sé vanmetin í tæknilegum hönnunum.
  • heildar-sjónarhorn, þar sem „greind“ verði samsett úr greind manna og gervigreindar og að helsta ógnin sé sú að hröð þróun sem skapi vandamál á við hafa að yfirsýn og að stjórna þróuninni.

Að lokum má segja að gervigreind sé tvíeggjað sverð. Hún býður upp á áður óþekkt tækifæri til framfara, nýsköpunar og betri þjónustu – en hún krefst jafnframt varkárni, siðferðilegs mats og skýrrar stefnumörkunar til að tryggja að áhrif hennar verði jákvæð fyrir samfélagið í heild.

Höfundur:  Ásrún Matthíasdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík

Greinar sem ég gluggaði í:
Peeters, M.M.M., van Diggelen, J., van den Bosch, K. et al. Hybrid collective intelligence in a human–AI society. AI & Soc 36, 217–238 (2021). https://doi.org/10.1007/s00146-020-01005-yFarina, M., Zhdanov, P., Karimov, A. et al. AI and society: a virtue ethics approach. AI & Soc 39, 1127–1140 (2024). https://doi.org/10.1007/s00146-022-01545-5Baronchelli Andrea 2024 Shaping new norms for AIPhil. Trans. R. Soc. B37920230028 http://doi.org/10.1098/rstb.2023.0028You Must Know About Top 11 Romantic AI Chatbots In 2025 https://www.copilot.live/blog/best-romantic-ai-chatbot

 

Skoðað: 143 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála