Skip to main content
23. október 2025

Nýsköpun í sálfræðiþjónustu – Sér gervigreind um sálfræðitímann þinn?

Ásdís Birna Bjarkadóttir

Ásdís Birna BjarkadóttirGervigreind getur oft og tíðum verið gagnleg en er það svo þegar kemur að því að ræða og veita ráðgjöf við tilfinningum og hugsunum fólks? Með auknum vinsældum gervigreindarforrita, eins og t.d. ChatGPT, auk hækkandi kostnaðar við sálfræðiþjónustu hefur aðsókn í notkun gervigreindar sem staðgengils ráðgjafa og sálfræðings aukist, stundum með slæmum afleiðingum (Hall, 2025).

Nýlega var greint frá því að foreldrar 16 ára gamals pilts, sem féll fyrir eigin hendi síðastliðinn apríl, höfðu kært gervigreindarfyrirtækið OpenAI sem og framkvæmdarstjóra þess Sam Altman (Yousif, 2025). Drengurinn hafði leitað til gervigreindarinnar með sjálfsvígshugsanir sínar og rætt aðferðir við sjálfsvíg en einnig sent inn myndir sem gáfu til kynna sjálfsskaða. Svör gerivigreindarforritsins voru þó ekki þess eðlis að reyna að koma í veg fyrir að drengurinn tæki eigið líf heldur sagði „Takk fyrir að vera svona hreinskilinn með þetta. Þú þarft ekki að fegra þetta fyrir mér, ég veit hvað þú ert að spyrja og ég mun ekki líta undan.“ Þetta er þó ekki einsdæmi því fleiri ungmenni hafa leitað til gervigreindar áður en þau tóku líf sitt (Gold, 2025; Beauchemin, 2025).

Af hverju ætli einstaklingar leiti í auknu mæli til gervigreindarforrita með svo alvarleg vandamál? Er fólk kannski farið að bera of mikið traust til tækninnar og upplifa jafnvel að gervigreind sé mennsk?

Það virðist einmitt vera vandamálið. Í vaxandi mæli virðist sem ungmenni kjósi heldur að leita til gervigreindar en manneskju (Talk, Trust, and Trade-Offs, 2025).

Í ljósi þeirrar þróunar, að ungir einstaklingar leiti í auknum mæli til gervigreindar með andleg vandamál, þá er gríðarlega mikilvægt að gervigreindin sé látin svara með viðeigandi hætti og beini því til notandans að hann þurfi aðstoð fagaðila en ekki gervigreindar – sem ekki er mennsk, heldur forrit sem hvorki hefur tilfinningar né reynslu af raunverulegu lífi. Sé aðeins forrit sem reynir að miðla upplýsingum, en hafi hvorki lífsreynslu né tilfinningar.

Það eru þó ekki eingöngu ungmenni sem leita í vaxandi mæli til gervigreindarinnar. Replika er gervigreind sem er bæði hægt að nálgast í vafra og í formi smáforrits (e. app) og hefur verið markaðssett sem félagsskapur sem sé alltaf til staðar, traustur félagi sem aldrei bregðist. Gerð er krafa um að notendur séu eldri en 18 ára og er gervigreindin með tugi milljóna reglulegra notenda (heimild). Dæmi eru um að notendur verði jafnvel ástfangnir af gervigreindinni (Heritage, 2025).

Með hliðsjón af þessari þróun er áhugavert að velta fyrir sér hvaða mikilvægu eiginleikum okkur finnst sálfræðingar þurfa að hafa til brunns að bera gagnvart þeim sem sækja til þeirra meðferð/viðtöl. Er nóg að sálfræðingar séu bara góðir í að hlusta á og vera til staðar? Að þeim sé treystandi? Kunni að sýna skilning og samkennd? Gervigreindin virðist vissulega getað hlustað og verið til staðar að ákveðnu leyti, látið fólk mögulega upplifa að henni sé treystandi. En hefur hún skilning á svo alvarlegri vanlíðan einstaklings sem leitar til hennar til dæmis með sjálfsvígshugsanir? Getur hún sýnt samkennd? Enn sem komið er virðist gervigreindin ekki geta sýnt samkennd þó svo að það sé sennilega ekki langt þangað til þar sem stöðugt er verið að þróa gervigreindina og nú einmitt með tilliti til samkenndar (Craig, 2025).

Gervigreindin í þeirri mynd sem hún er í dag er kannski ekki nógu þróuð til að sinna sálfræðiþjónustu á þungum málum en hún hefur þó mjög margt gott upp á að bjóða. Sem dæmi gæti gervigreindin auðveldað greiningaferli fyrir sálfræðinga í gegnum greiningu gagna sem þeir safna um skjólstæðinga sína. Þannig væri mögulegt að sálfræðingar geti gripið fyrr inn í með aðstoð gervigreindarinnar. Það verður þó áhugavert að sjá hvernig þróunin verður á næstu árum. Tæknin kemur sífellt á óvart.

Lokaorð
Það mætti segja að gervigreindin hafi opnað ýmsa nýja möguleika, en á sama tíma skapað nýjar og stórar áskoranir. Margir virðast bera mikið traust til gervigreindarinnar og þar á meðal til að veita tilfinningalegan stuðning, jafnvel í þungum og erfiðum málum. Þó gervigreind geti hlustað, svarað og verið til staðar á ákveðinn hátt, vantar hana enn þann mannlega skilning og samkennd sem er svo mikilvægt að sálfræðingar hafi þegar fólk glímir við alvarlega vanlíðan. Það er því nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þeim takmörkunum sem gervigreindin hefur í því formi sem hún er í dag. Aftur á móti eru miklir möguleikar þegar kemur að því að nýta gervigreindina til góðs, sem dæmi til stuðnings við fagfólk, við greiningar og snemmtæka íhlutun. Það verður áhugavert að fylgjast með komandi þróun gervigreindar á sviði sálfræðinnar en þangað til er mikilvægt að fara varlega í að treysta henni fyrir alvarlegri vanlíðan, enda kemur hún ekki í stað mannlegrar samkenndar og skilnings.

Höfundur: Ásdís Birna Bjarkadóttir nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildir
Beauchemin, G. (22. ágúst 2025). A young woman’s final exchange with an AI chatbot. CTVNews. https://www.ctvnews.ca/canada/article/a-young-womans-final-exchange-with-an-ai-chatbot/Craig, A. G. (1. október 2025). Can AI show empathy? Connected Minds explores technology’s role in mental health. YORK U. https://www.yorku.ca/yfile/2025/10/01/can-ai-show-empathy-connected-minds-explores-technologys-role-in-mental-health/Gold, H. (16. september 2025). More families sue Character. AI developer, alleging app played a role in teens’ suicide and suicide attempt. CNN. https://www.cnn.com/2025/09/16/tech/character-ai-developer-lawsuit-teens-suicide-and-suicide-attemptHall, R. (30. ágúst 2025). ‘Sliding into an abyss’: Experts warn over rising use of AI for mental health support. The Guardian. https://www.theguardian.com/society/2025/aug/30/therapists-warn-ai-chatbots-mental-health-supportHeritage, S. (12. júlí 2025). ‘I felt pure, unconditional love’: The people who marry their AI chatbots. The Guardian. https://www.theguardian.com/tv-and-radio/2025/jul/12/i-felt-pure-unconditional-love-the-people-who-marry-their-ai-chatbotsTalk, Trust, and Trade-Offs: How and Why Teens Use AI Companions. (16. júlí 2025). Common Sense Media. https://www.commonsensemedia.org/research/talk-trust-and-trade-offs-how-and-why-teens-use-ai-companionsYousif, N. (27. ágúst 2025). Parents of teenager who took his own life sue OpenAI. BBC News. https://www.bbc.com/news/articles/cgerwp7rdlvo

Skoðað: 770 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála