Opinn hugbúnaður í nýsköpun og sprotafyrirtækjum
Á undanförnum árum hefur opinn hugbúnaður (e. open source software) vaxið rosalega. Það sem að fór úr því að vera alls konar einstaklingar að nördast saman og búa til hugbúnað er orðið að einna mest notuðu vörum í þróun á hugbúnaði í dag. Stór fyrirtæki eins og Meta, Google, IBM (Timonera, 2024) og svo mætti lengi telja, nota sér bæði opinn hugbúnað og þróa hann líka.
Með notkun opins hugbúnaðar geta sprotafyrirtæki í dag nýtt sér að miklu leyti aðstoðar annara hugbúnaðarframleiðanda og/eða notanda til þess að þróa vöru sína. Kostir þess að nota opinn hugbúnað fyrir sprotafyrirtæki eru helst þeir sem liggja í augum uppi, þ.e. að minnka kostnað bæði vegna leyfisgjalda og vegna þróunarvinnu sem þarf ekki að eiga sér stað. Með opnum hugbúnaði geta sprotafyrirtæki notað kóðann (e. source code) sem þegar hefur verið þróaður og aðlagað að sínum þörfum. Tími á markað getur líka minnkað töluvert vegna ofangreindra ástæðna, svo ekki sé minnst á þá alþjóðlegu hlið, og möguleika á allskyns alþjóðlegu samstarfi við aðra sérfræðinga á sviðinu. Notkun á opnum hugbúnaði er sérstaklega áhugaverð og mikilvæg á eins litlu markaðssvæði og Ísland er, sérstaklega vegna fjármagns og mögulega vegna skorts á sérhæfingu á ákveðnum sviðum. Í því umhverfi getur það skipt sköpum að komast bæði hratt af stað í þróun og draga úr kostnaði til þess að tryggja samkeppnishæfni.
Í skólum á Íslandi og þá sérstaklega á sviðum sem leggja áherslu á tölvunotkun er notkun á opnum hugbúnaði töluverð. Bæði nemendum og kennurum í vil, þar sem að ekki þarf að borga fyrir notkun á þessum hugbúnaði og auðvelt er að fara í þaulana á hugbúnaðinum sem er notaður vegna þess að kóðinn er aðgengilegur öllum og mikil þátttaka er í þróun hvers kyns hugbúnaðar sem er verið að nota hverju sinni. Það mætti því segja að íslensk menntakerfi séu að ýta undir notkun og þróun á opnum hugbúnaði við ýmis konar nýsköpun og búa til sérfræðinga á því sviði, sem að er að sjálfsögðu mikilvægt í alþjóðlegu samhengi.
Notkun á opnum hugbúnaði er þó ekki áskoranalaus. Það sem er galdurinn við að þau virki, getur líka dregið þau að falli. Með opnum kóða sem allir geta nálgast er oft auðveldara að sjá veikleika í kóðanum, ætli sér einhverjir að misnota vöruna eða kóðann þinn. Og þó svo að opinn hugbúnaður í grunninn sé ekki bundinn leyfum eru ýmsar vörur sem byggðar eru á honum bundnar leyfum og þá oft í þeim tilgangi að honum sé viðhaldið, því ekki hafa allir áhuga á því að halda uppi vörum og hugbúnaði án þess að fá greitt fyrir það. Það býður þá líka hættunni heim ef hugbúnaðinum sé ekki viðhaldið því oft tengist þessi hugbúnaður öðrum og ef hann er uppfærður eða breytt geta hinir hætt að virka.
Niðurstaðan er samt sú að opinn hugbúnaður er gífurlega mikilvægur okkar samfélagi í dag og á eftir að spila enn meira og stærra hlutverk í náinni framtíð, bæði í alþjóðlegu samhengi og sérstaklega á Íslandi þar sem markaðssvæðið okkar er minna.
Höfundur: Hrafnkell Fjölnisson nemandi við Háskólann í Reykjavík
Heimild
Timonera, K. (2024, March 21). Datamotion. Retrieved from Open Source: https://www.datamation.com/open-source/35-top-open-source-companies/
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.
