Skip to main content
4. desember 2025

Hvernig geta lítil sprotafyrirtæki á Íslandi nýtt gervigreind til að skapa sér samkeppnisforskot?

Arnar Daníel Jónsson

Arnar Daníel JónssonÁ undanförnum árum hefur gervigreind (AI) þróast á gríðarlegum hraða. Frá því að vera skemmtilegt tól, sem fólk notaði sér bæði til dægrastyttingar en einnig til vinnu, í að vera stór drifkraftur í atvinnulífi og nýsköpun. Með notkun AI geta sprotar t.d. hraðað hugmyndavinnu, sjálfvirknivætt ferla og fengið aðgang að nýjum mörkuðum á mun skilvirkari hátt en áður(Gindert & Müller, 2024).

Fyrir lítil fyrirtæki á Íslandi með takmarkaðan aðgang að mannauð og fjármagni getur rétt notkun á AI skipt sköpum. Íslenskt atvinnulíf einkennist af litlum markaði þar sem mörg fyrirtæki þurfa að sækja út fyrir landsteinana til að geta haldið áfram að vaxa og dafna. Stærð landsins veldur því oft áskorunum en einnig tækifærum. Smæðin getur gert prófanir og tilraunir auðveldari. AI getur svo orðið lykill að því að íslensk sprotafyrirtæki skapi sér forskot á alþjóða markaði.

AI getur gengt mikilvægu hlutverki í að styðja sprotafyrirtæki á fyrstu stigum. Fyrst má nefna hugmyndavinnu, þar sem AI getur hjálpað við að þróa fjölbreyttar hugmyndir á stuttum tíma og einnig gera frumgerðir hraðar en áður (Gindert & Müller, 2024). Þetta er sérstaklega dýrmætt þar sem bæði tími og fjármagn er lang oftast verulega takmarkað hjá sprotafyrirtækjum.

AI mun einnig geta nýst í sjálfvirknivæðingu daglegra ferla hjá sprotunum. Þau geta meðal annars notað gervigreindina til að svara viðskiptavinum og vinna og greina markaðsgögn. Fyrir lítil fyrirtæki getur þetta stutt að gríðarlegum sparnaði í bæði mannauð og kostnaði á tólum.

Að lokum getur gervigreindin stutt sprotana í alþjóðavæðingu. Með því að nýta stafrænar lausnir og AI tól geta sprotarnir prófað hugmyndir á íslenskum markaði en svo fljótt fært sig út fyrir landsteinana með hjálp gervigreindarinnar. Þetta getur aukið líkurnar á að þau festi sig í sessi sem alþjóðlegir leikmenn.

Smæð íslenska markaðarins þýðir að sprotar þurfa að vera skapandi og sveigjanlegir. Það er í raun samt styrkur þar sem lítil fyrirtæki geta tekið ákvarðanir hraðar en stór alþjóðlega fyrirtæki. Þetta er eitthvað sem gervigreind getur hjálpað með og aukið þennan sveigjanleika enn frekar.

Íslensk sprotafyrirtæki hafa þegar sýnt að hægt er að nýta sér AI til að skapa sér sérstöðu. Í heilbrigðistækni eru sprotar að þróa greiningarverkfæri með hjálp gervigreindarinnar, í sjávarútvegi eru notuð reiknirit til að bæta sjálfbærni og nýtingu og í tungumálakennslu hafa sprotar nýtt gervigreindina til að þróa verkfæri og tól sem styðja við íslenskt mál og kennslu. Með því að nýta gervigreindina á þessum sviðum hafa sprotar ekki bara sterkari stoðir til að keppa við stærri fyrirtæki heldur einnig skapað lausnir sem endurspegla íslenskar aðstæður.

Stuðningur hins opinbera er einnig gríðarlega mikilvægur. Í stefnunni Nýsköpunarlandið Ísland er lögð áhersla á að samfélagið taki virkan þátt í hröðum tæknibreytingum, þar sem þær eru forsenda bæði samkeppnisstöðu og velferðar þjóðarinnar (Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, 2019, bls. 6). Það liggur því beint við að hugmyndir sprotafyrirtækja sem nýta sér tækninýjungar á borð við gervigreind og tengda tækni eigi að njóta stuðnings hins opinbera, bæði með styrkjum og með virkri notkun. Þetta skapar jarðveg þar sem gervigreind getur orðið lykiltól til að byggja samkeppnisforskot.

Þrátt fyrir þessa miklu möguleika sem þetta býður upp á eru ýmsar áskoranir sem litlir sprotar þurfa að horfast í augu við. Þótt gervigreind geti hjálpað til við vinnu sem áður tók stóran hluta af fjármagni sprotafyrirtækja, fylgir samt ákveðinn kostnaður. Einföld áskrift af ChatGPT er kannski ekki að fara að hafa mikil áhrif, en þegar önnur gervigreindartól eru notuð getur kostnaðurinn orðið verulegur, til dæmis við kaup á aðgangi að sérhæfðum gagnasöfnum eða þegar þarf að þjálfa eigin reiknirit í skýjaþjónustum á borð við Amazon Web Services eða Google Cloud. Einnig getur aðgangur að gögnum verið áskorun. Gögn, sem er undirstaðan fyrir gervigreind, byggir á þau séu fjölbreytt og magnið mikið.

Á íslenska markaðinum getur verið erfit að ná í það magn sem þarf til að gervigreindin virki sem best. Þá þarf oft að snúa sér að þjónustum sem gætu selt gögn við hæfi sem kostar pening. Skortur á sérfræðingum getur líka verið áskorun og þarf oft að sækja sérfræðiþekkingu erlendis frá. Það getur verið kostnaðarsamt ef þá þekkingu þarf að flytja inn varanlega en oft á tíðum er hægt að notast við fjarvinnu til að spara pening og einnig ráða inn þessa sérþekkingu í skamman tíma í einu.

Lítil sprotafyrirtæki á Íslandi standa frammi fyrir einstökum tækifærum til að skapa sér samkeppnisforskot með nýtingu gervigreindar. Hún getur hraðað hugmyndavinnu, sparað kostnað með sjálfvirknivæðingu og opnað dyr að alþjóðlegum mörkuðum. Á sama tíma kalla áskoranir tengdar fjármagni og sérfræðiþekkingu á að sprotar nálgist tæknina af varfærni og með skýra stefnu.

Samkeppnisforskot íslenskra sprotafyrirtækja felst í því að sameina sveigjanleika og hraða smæðarinnar við ábyrga og öfluga notkun gervigreindar. Þetta samræmist áherslum opinberrar stefnu, þar sem lögð er rík áhersla á að Ísland taki virkan þátt í hröðum tæknibreytingum sem forsenda samkeppnisstöðu og velferðar þjóðarinnar (Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, 2019, bls. 6). Með því geta sprotafyrirtæki ekki aðeins keppt á alþjóðavísu heldur einnig lagt sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar og nýsköpunar á Íslandi.

Höfundur: Arnar Daníel Jónsson, nemandi við Háskólann í Reykjavík

Heimildaskrá
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. (2019). Nýsköpunarlandið Ísland: Nýsköpunarstefna til 2030. https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/ANR/Nyskopun/NSL%C3%8D1.pdf. (Sjá bls. 6 um hraðar tæknibreytingar og mikilvægi þátttöku Íslands)
Gindert, M., & Müller, M. L. (2024). The impact of generative artificial intelligence on ideation and the performance of innovation teams. arXiv preprint. Retrieved from https://arxiv.org/abs/2410.18357 (Last revised 25 Feb 2025, https://doi.org/10.48550/arXiv.2410.18357)

Skoðað: 11 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála