Skip to main content
11. desember 2025

Nýsköpun og gervigreind – er tölvunarfræðinám fýsilegt?

Tómas Bent Magnússon

Tómas Bent MagnússonÁ síðustu árum hefur gervigreind orðið stór þáttur við nýsköpun. Verkefni sem áður voru talin aðeins leysanleg af mönnum eru nú leyst með hjálp gervigreindar. Þessi tól hafa þróast frá því að vera einfalt verkfæri í vera virkur aðili í vinnu og nýsköpun (Mollick, 2025). Þetta hefur vakið spurningar um framtíð menntunar og störf í upplýsingatækni og fleiri geirum.

Ef vélar geta sinnt stórum hluta af daglegu forritunarstarfi, er þá skynsamlegt að eyða árum saman við nám í tölvunarfræði. Sumir hafa jafnvel bent á að heilar starfstéttir séu í hættu vegna hraðra tækniframfara (World Economic Forum, 2025).

Þessi grein mun velta fyrir sér hvort tölvunarfræðinám sé enn fýsilegt í heiminum í dag þar sem gervigreind mótar nýsköpun og vinnumarkað eða hvort það geti jafnvel orðið mikilvægara en áður.

Það sem valdið hefur áhyggjum er hvernig gervigreind er þegar byrjuð að taka yfir hluta af störfum, sérstaklega á sviði forritunar. Í tilraun sem var gerð kom í ljós að forritarar sem notuðu GitHub Copilot kláruðu verkefni að meðaltali 55% hraðar en þeir sem unnu án þess (Microsoft Research, 2023). Þetta sýnir að sjálfvirkni er ekki lengur tilraunakennd hugmynd heldur raunveruleiki sem breytir eðli starfsmanns. Samkvæmt skýrslu McKinsey gæti gervigreind haft áhrif á allt að 30% af verkefnum starfsmanna í alls kyns geirum, þar sem endurtekin og fyrirsjáanleg störf eru hvað líklegust til að hverfa eða umbreytast á ákveðinn hátt (McKinsey, 2023).

Þessi þróun leiðir til ótta um að nám í tölvunarfræði gæti orðið úrelt. Sem tölvunarfræðinemi velti ég því oft fyrir mér hvort nám mitt hafi kosti þegar forritun gæti í auknum mæli verið unnin af hverjum sem er sem kann að nýta sér gervigreind. Samkvæmt grein Forbes eru fleiri vinnuveitendur í dag að horfa minna á háskólagráður og meira á raunverulega hæfni í starfi. Greinin bendir þó jafnframt á að „this field is booming, from AI to app development“, sem hljómar vissulega hughreystandi fyrir nemendur, þó ekki sé það algjör trygging um framtíðaröryggi á vinnumarkaði (Robinson, 2025).

Þótt margir óttist að gervigreind leysi störf forritara alfarið, bendir margt til þess að störf tölvunarfræðinga og forritara hverfi ekki alfarið heldur breytist eðli þeirra. Í stað þess að skrifa hverja kóðalínu frá grunni munu tölvunarfræðingar í framtíðinni líklega sinna meira verkefnum þar sem mannlega hliðin verður ómissandi. Þar má nefna t.d. hönnun og yfirsýn kerfa, ábyrgð í notkun gervigreindar og lausn siðferðilegra áskorana.

Grein frá Columbia Engineering bendir jafnframt á að tölvunarfræðimenntun þurfi nú að aðlagast nýjustu tækniframförum. Lögð er áhersla á að nemendur læri ekki aðeins að forrita heldur einnig að þróa gagnrýna hugsun, kerfishönnun og aðferðir sem nýtast í tækniumhverfi (Columbia Engineering, 2024).

Að mínu mati er þetta athugunarvert fyrir sprotafyrirtæki. Ef þau ætla að geta veitt raunverulega samkeppni þurfa þau á fólki með dýpri þekkingu að halda, þrátt fyrir öll þessi nýju tól. Gervigreind getur stutt við ferlið, en mannleg innsýn og sköpun eru enn lykilatriði í að byggja lausnir sem standast próf raunveruleikans og er því alltaf þörf á fagaðilum.

Tölvunarfræði snýst ekki aðeins um að læra forritunarmál heldur líka um hugsunina á bak við þau, að greina vandamál, finna leiðir til að leysa þau og hanna kerfi sem virka. Þessi færni heldur gildi sínu óháð því hvaða tæki eru notuð, og með tilkomu gervigreindar verður hún enn mikilvægari.

Ég hef til dæmis sjálfur fundið það eftir að ég byrjaði í náminu að ég hugsa meira um lausnir og hvernig hægt sé að bæta hlutina. Þetta gerir mig meðvitaðri um að námið er ekki að verða tilgangslaust! Hvað þá þegar hægt er að nota gervigreind á gagnrýninn og skapandi hátt.

Tölvunarfræðinám er ekki að verða úrelt vegna gervigreindar heldur öðlast nýtt vægi. Þó að vélar geti nú sinnt mörgum hefðbundnum forritunarverkefnum byggir nýsköpun áfram á mannlegri sköpun, gagnrýnni hugsun og djúpum skilningi á tækninni. Að mínu mati er punkturinn yfir i-ið sá að námið kennir okkur að hugsa um lausnir og mögulegar umbætur, ekki aðeins kóðun. Í heimi þar sem gervigreind er orðin sjálfsagður hluti af vinnu er nauðsynlegt að hafa fólk sem getur nýtt hana á ábyrgan og skapandi hátt. Tölvunarfræðinám er því enn fýsilegt, jafnvel mikilvægara en áður.

Höfundur: Tómas Bent Magnússon, nemandi við Háskólann I Reykjavík

Heimildir
Columbia Engineering. (2025, August 29). Adapting computer science education to a changing tech landscape. https://www.engineering.columbia.edu/about/news/adapting-computer-science-education-changing-tech-landscapeMcKinsey & Company. (2023, July 26). Generative AI and the future of work in America. https://www.mckinsey.com/mgi/our-research/generative-ai-and-the-future-of-work-in-americaMicrosoft Research. (2023, February). The impact of AI on developer productivity: Evidence from GitHub Copilot. https://www.microsoft.com/en-us/research/publication/the-impact-of-ai-on-developer-productivity-evidence-from-github-copilot/Mollick, E. (2025, September 29). Real AI agents and real work. https://www.oneusefulthing.org/p/real-ai-agents-and-real-workRobinson, C. (2025, April 15). Many college degrees are now useless: Here’s what’s worth your money. https://www.forbes.com/sites/cherylrobinson/2025/04/15/many-college-degrees-are-now-useless-heres-whats-worth-your-money/World Economic Forum. (2025, January 8). Future of jobs report 2025: Jobs of the future and the skills you need to get them. https://www.weforum.org/stories/2025/01/future-of-jobs-report-2025-jobs-of-the-future-and-the-skills-you-need-to-get-them/

Skoðað: 20 sinnum

Blaðið Tölvumál

Forsíða Tölvumála

Leita í vefútgáfu Tölvumála

Um Tölvumál

Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.

Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.

Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.

Um ritnefnd Tölvumála