

Óttar Kjartansson
f. 7. ágúst 1930
d. 17. apríl 2010
Fyrsta íslenska fyrirtækið á því sviði atvinnulífsins sem nú nefnist upplýsingatækni var stofnað árið 1952. Heiti þess var upphaflega Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurbæjar, en síðar varð skammstöfunin Skýrr að heiti þess og vörumerki. Stofnendur voru Hagstofa Íslands f.h. Ríkisstjórnarinnar og Rafmagnsveita Reykjavíkur f.h. Reykjavíkurbæjar. Skýrsluvélar tóku við rekstri gagnavinnsluvéla sem Hagstofan hafði nýlega aflað sér ásamt samningi er Rafmagnsveitan hafði gert við IBM um leigu á vélasamstæðu. Fyrstu starfsmenn Skýrr komu frá Rafmagnsveitunni og Hagstofunni. Óttar Kjartansson kom til Skýrsluvéla frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur þar sem hann hafi unnið frá 1948. Ekki var langt að fara því hið nýja fyrirtæki fékk inni í einu herbergi hjá Rafmagnsveitunni í Tjarnargötu 12. Óttar starfaði hjá Skýrr í fimmtíu ár. Fjórum síðustu starfsárunum varði hann í að taka saman sögu fyrirtækisins. Kom hún út á bók árið 2002: Upplýsingaiðnaður í hálfa öld. Saga Skýrr 1952-2002, 350 blaðsíðna verk, ómetanleg heimild um upphaf vélrænnar gagnavinnslu á Íslandi.