Sprotar og nýsköpun
Nýsköpun og sprotastarfsemi er afar samofin sögu Háskólans í Reykjavík og í stefnu skólans sagði árið 2022: „Háskólinn í Reykjavík er driffjöður nýsköpunar í gegnum hagnýtingu rannsókna og þjálfun fyrir alla nemendur“. Í dag er skólinn með sérstaka sprotastefnu sem hægt er að skoða á heimasíðu skólans.
Til að styðja við þessa stefnu hefur frá árinu 2001 verið kenndur áfanginn Nýsköpun og stofnun fyrirtækja og í að minnsta kosti tvö ár þar á undan var kenndur forveri þess áfanga, Stofnun og rekstur fyrirtækja. Áfanginn hefur verið skyldunámskeið hjá flestum deildum skólans, meirihluta þess tíma, og hefur fjöldi nemenda í einu verið allt upp í rúmlega 600 manns. Í áfanganum er farið í gegnum ferlið við að fá viðskiptahugmynd, þróa hana yfir í viðskiptatækifæri, gera ýmiskonar viðskiptaáætlanir og útbúa frumgerðir og að lokum prófa frumgerðirnar og kynna hugmyndina fyrir fjárfestum. Nemendur vinna saman í hóp allt námskeiðið og þar sem flestar deildir sitja áfangann þá eru hóparnir oft ansi fjölbreyttir og reynt er að blanda saman nemendum úr fleiri en einni deild. Reynsluboltar frá skólanum sem og úr atvinnulífinu halda fyrirlestra og kynna allar hliðar ferilsins, frá hugmynd að starfand fyrirtæki, ásamt því að vera nemendum til halds og trausts sem leiðbeinendur (e. mentors) varðandi þeirra hugmyndir. Á þeim þremur vikum sem námskeiðið stendur yfir, fá nemendur ógrynni af ráðum og fræðslu til að koma þeim af stað, ásamt því að fá hvatningu og ráðleggingar varðandi ferlið ef þeir vilja fara lengra með góðar hugmyndir og láta reyna á raunverulega fjármögnun. Í lok námskeiðsins eru svo efstu 3 hóparnir verðlaunaðir.
Hugmyndir unnar í þessum áfanga enda svo iðulega í hinum ýmsu frumkvöðlakeppnum, svo sem Gullegginu, Startup Supernova og fleiri viðskiptahröðlum sem margir hverjir eru haldnir af KLAK. KLAK er óhagnaðardrifið félag sem er meðal annars í eigu Háskólans í Reykjavík. KLAK vinnur að því að hjálpa frumkvöðlum að koma hugmyndum sínum á framfæri ásamt því að hjálpa sprotafyrirtækjum að komast lengra og styrkja þau til að taka fyrstu skrefin í viðskiptalífinu.
Þessi stefna skólans ásamt hugmyndaauðgi og þori nemenda og starfsmanna hefur líklega átt stærstan þátt í því hversu mörg sprotafyrirtæki hafa sprottið upp tengd HR. Árið 2022 var tekin saman listi yfir þau sprota- og nýsköpunarfyrirtæki sem vitað var til að hefðu verið stofnuð tengd Háskólanum í Reykjavík, annað hvort í gegnum nemendur eða starfsmenn skólans, frá stofnun hans árið 1998. Þegar sá listi var tilbúinn voru á honum yfir 60 fyrirtæki sem höfðu bein tengsl við skólann. Stór hluti þessara fyrirtækja höfðu orðið til í gegnum lokaverkefni nemenda eða tengd rannsóknum starfsfólks. Mér þykir ansi líklegt að á þessum lista séu líka fyrirtæki sem hafa orðið til í námskeiðinu sem ég kynnti hér fyrr í greininni.
Sprotasólin sem var útbúin út frá þessum lista sýnir og sannar að skólinn hafi farið eftir stefnu sinni að vera driffjöður nýsköpunar. Á Sprotasólinni má finna ýmis fyrirtæki sem eru orðin þekkt nöfn og hafa skapað sér þónokkurn sess í íslensku atvinnulífi. Mér þykir því vel við hæfi að minnast á nokkur þeirra til að sýna fram á hvað getur orðið úr litlu sprotafyrirtæki með háleit markmið. Á listanum eru til dæmis hugbúnaðarfyrirtækið Annata sem var stofnað árið 2001 og var árið 2022 metið á um 15 milljarða króna skv. Viðskiptablaðinu. Ferðaskrifstofan Nordic Visitor kemst einnig á listann. Hún var stofnuð árið 2002 og er nú með skrifstofur í 4 löndum og samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins með rétt tæplega 100 starfsmenn. Þau skipuleggja sérsniðnar ferðir á ýmsa staði í Evrópu og eru með hvorki meira né minna en 4.9 í einkunn á Tripadvisor.
Skema er líka eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa orðið til í HR. Skema sinnir forritunarkennslu fyrir börn og unglinga og heldur námskeið allt árið um kring fyrir börn á aldrinum sirka 5-15 ára. Hugmyndin vaknaði hjá Rakel Sölvadóttur og Laufeyju Dís Ragnarsdóttir sem voru saman í áfanga í þroskasálfræði í HR árið 2010. Hugmyndin fékk strax góðar undirtektir og þær tóku þátt í frumkvöðlakeppninni Fræ ársins árið 2011 og sigruðu þá keppni. Þar byrjaði boltinn að rúlla og námskeiðin hjá Skema verða vinsælli með hverju árinu og hafa kynnt fjölda íslenskra barna fyrir forritun og mögulega haft áhrif á val þeirra á háskólanámi og starfsferli.
Nokkur önnur þekkt nöfn á listanum eru GeoSilica, Syndis, Kara Connect, Myrkur Games, Dineout og Hopp. Öll þessi fyrirtæki hafa orðið að stórum nöfnum í viðskiptalífinu og eru ennþá í fullu fjöri og búin að vaxa og dafna eins og sannir sprotar.
Þetta eru svo einungis örfá dæmi um fyrirtæki sem hafa sprottið út frá nýsköpun í HR og þeim mun svo sannarlega ekki fækka á komandi árum geri ég ráð fyrir. Ungt fólk í dag er uppfullt af hugmyndum og ótrúlega óhrætt við að láta vaða og demba sér í að láta hugmyndirnar verða að veruleika. Við erum líka ofboðslega rík af frjóu og reynslumiklu rannsóknarfólki hér í Háskólanum í Reykjavík sem vinnur statt og stöðugt að því að skapa og finna upp nýja tækni og finna leiðir til nýtingu eldri tækni á nýjan máta.
Framtíðin er svo sannarlega björt og ég hef fulla trú á að það muni spretta upp enn fleiri sprotar hér í HR á næstu árum sem munu verða að stórum og sterkbyggðum trjám.
Höfundur Þórey Ósk Árnadóttir nemandi við Háskólann í Reykjavík
Heimildaskrá
Háskólinn í Reykjavík (2025) Skoðað í október 2025.
https://www.ru.is/visindin/nyskopun/nyskopunarnamskeidhttps://www.ru.is/frettir/verdlaunaafhending-namskeidsins-nyskopun-og-stofnun-fyrirtaekjahttps://www.ru.is/hr/starfsemi/stefnur-og-samthykktir/sprotastefna-hrhttps://www.ru.is/visindin/nyskopun/sprotasol-hrKLAK (2025) Skoðað í október 2025. https://klak.is/about/#starfsemiViðskiptablaðið (17.mars 2022) „Annata metið á 15 milljarða“ Skoðað í október 2025. https://vb.is/frettir/annata-metid-15-milljarda/Nordic Visitor (2025) skoðað í október 2025. https://www.nordicvisitor.com/about-us/#peopleTripadvisor (2025) Skoðað í október 2025. https://www.tripadvisor.com/Attraction_Review-g189970-d2287372-Reviews-Nordic_Visitor_Tours-Reykjavik_Capital_Region.htmlSkema (2025) Skoðað í október 2025. https://www.ru.is/skema/um-skema
Skil á efni
Leita í vefútgáfu Tölvumála
Um Tölvumál
Tölvumál - tímarit Skýrslutæknifélags Íslands er óháð tímarit um tölvutækni og hefur verið gefið út frá árinu 1976.
Vefútgáfa Tölvumála birtir vikulega nýja grein á vef Ský og árlega er gefið út veglegt prentað tímarit undir nafninu "Tölvumál" þar sem fjallað er um tölvutækni frá ýmsum sjónarhornum og er þema blaðsins jafnan valið snemma árs og útgáfa að hausti.
Ritnefnd Ský sér um að afla efni í Tölvumál og geta allir sem áhuga hafa sent inn efni.
